Stefna
Einelti og annað ofbeldi líkamlegt sem andlegt er ekki liðið í Auðarskóla. Leitað verður stöðugt ráða til að fyrirbyggja einelti og brugðist verður við þeim málum sem upp kunna að koma án tafar. Frá ungaaldri verði nemendum skólans markvisst kennd góð samskipti. Nemendur skulu hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita. Nemendum skal gert grein fyrir því að það að skilja kerfisbundið útundan og virða aðra ekki viðlits er einelti. Auðarskóli á að vera öruggur vinnustaður, þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju fyrir öllum.
Skilgreining
Einelti er endurtekið, andlegt eða líkamlegt ofbeldi og/eða félagsleg útskúfun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps. Einelti er ekki bundið við skóla, heldur getur verið á vinnustöðum og í heilu samfélögunum.
Birtingarmyndir eineltis geta verið margar:
– Líkamlegt. T.d. barsmíðar, spörk, hrindingar og að hindra ferðir
einstaklings.
– Munnlegt. T.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir, baktal og
endurtekin stríðni.
– Skriflegt. T.d. niðrandi tölvuskeyti, sms-skilaboð, krot og
bréfasendingar. Sem og öll rafræn samskipti.
– Óbeint. T.d., með útskúfun eða útilokun úr félagahóp. Fara
framfyrir aðra í röð, neita að sitja hjá viðkomandi eða að vinna
með honum í hópavinnu.
– Efnislegt. T.d. þegar eigum barns stolið, þær faldar eða þær
eyðilagðar. Fjárkúgun.
– Andlegt. T.d. þegar viðmót og samskipti einhvers hafa niður-
brjótandi áhrif á einstakling og gengur gegn réttlætiskennd hans og
sjálfsvirðingu.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Umsjónarkennari. Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki, þótt allt starfsfólk beri sameiginlega ábyrgð á eftirfylgni og framkvæmd eineltisáætlunarinnar. Eftirfarandi þættir skulu ávalt vera til staðar í bekkjarstarfinu.
Fræðsla. Fræðsla um einelti og samskipti heyrir undir lífsleikni-kennsluna, en skal þó ávallt höfð í huga við allt starf með nemendum. Námskrá í lífsleikni markar fræðsluna og tryggir samfellu.
Bekkjarreglur. Allar bekkjardeildir skulu ræða og setja sér bekkjareglur gegn einelti að hausti og útbúa veggspjöld með þeim til þess að hengja upp í stofum sínum.
Bekkjarfundir. Bekkjarfundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni í mánuði, í öllum bekkjum. Lengd og umræða fer eftir þroska, aldri og öðrum aðstæðum. Nemendur fá fræðslu um einelti, eðli eineltis, birtingarform þess og afleiðingar fyrir gerendur og þolendur. Auk þess eru samskipti og skólabragur viðfangsefni bekkjarfunda. Brýna skal vel fyrir nemendum að láta umsjónarkennara vita ef grunur um einelti kemur upp, eða láta foreldra vita þannig að þeir geti haft samband við umsjónarkennara.
Starfsfólk
Einelti þrífst vegna aðgerðarleysi fjöldans. Þess vegna þurfa allir að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Efla þarf umburðarlyndi, virðingu og samkennd meðal barnanna.
Þar sem samræmi og samstarf einkennir starf þeirra sem vinna með börnunum á einelti erfitt uppdráttar. Ef ekki er tekið á málum strax er hætta á að eineltið breiðist út og fleiri og fleiri leggist á sveif með gerandanum.
Einelti á einnig erfitt uppdráttar þar sem jákvæður agi, festa, velvilji, hrós og væntumþykja einkennir stjórnunarhætti.
Nemendur
Stærsti hluti barna tekur ekki beinan þátt í einelti heldur stendur til hliðar og horfir á. Það eru einmitt þessi börn sem geta stöðvað einelti með því að taka afstöðu gegn því. Fórnarlömbunum finnst nefnilega þessi börn oft taka afstöðu gegn sér. Þó svo að áhorfandi að einelti eigi ekki sök á neinu í þessu sambandi er honum skylt að bregðast við, sem réttsýnum borgara, án þess að þurfa að fara að leika einhverja hetju. Nemendur geta tekið afstöðu gegn einelti á margan hátt:
– Hleypa þolendum inn í félagahópinn.
– Neita að taka þátt í einelti.
– Sýna vanþóknun sína á hvers kyns einelti án orða, með fasi,
svipbrigðum og athöfnum.
– Kalla á hjálp frá fullorðnum.
– Biðja geranda að láta þolanda í friði.
– Hjálpa þolanda að forða sér úr aðstæðunum.
– Koma í veg fyrir samskipti á milli geranda og þolanda.
– Hvetja aðra nemendur til að taka afstöðu gegn hegðun gerandans.
– Fylgja þolanda til einhvers af starfsfólki skólans og hvetja hann til
að segja frá eineltinu.
– Gagnrýna hegðun geranda.
Samskiptamynstur í einelti
Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir og til að uppræta það er nauðsynlegt að hafa skilning á samskiptum milli einstaklinga og þeim ólíku hlutverkum sem hver og einn gegnir. Til að einelti geti átt sér stað þarf þolanda og geranda, oft eru líka aðstoðarmenn og meðhjálparar. Helstu hlutverk sem geta komið fram í eineltismálum eru eftirfarandi:
Gerandi beitir líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi gagnvart öðrum og oft ítrekað gagnvart sama aðilanum. Einelti getur falist í skemmdum eða þjófnaði á eigum viðkomandi (skólataska, föt, nesti, námsgögn og svo framvegis), uppnefnum, líkamsmeiðingum af einhverju tagi, félagslegri útilokun og fleiru. Börn sem eiga erfitt með að setja sig í spor annarra eru líklegri til að leggja aðra í einelti.
Aðstoðarmaður aðstoðar geranda í eineltinu og tekur beinan þátt í því, fylgir honum í einu og öllu. Hann leiðist út í ákveðna hegðun, ef til vill fyrir forvitni sakir eða vegna múgæsingar. Hann getur líka tekið þátt vegna ótta við geranda og/eða ósk um meiri vinsældir og styrk innan bekkjar. Aðstoðarmaður er oft á móti því sem er í gangi en tekur engu að síður þátt.
Meðhjálpari fylgist með úr fjarlægð, tekur ekki beinan þátt í athöfnum geranda og aðstoðarmanns en hvetur til athafna með látbragði, hlátri, aðdáun, líkamstjáningu og/eða orðum. Hann telur sig ekki bera ábyrgð á því sem er í gangi.
Áhorfandi fylgist með, kannar hvað er að gerast en vill ekki skipta sér af því. Hann kemur þolanda ekki til hjálpar.
Varnarmaður er sá sem kemur þolanda til hjálpar, ver hann og mótmælir eineltinu. Þannig getur hann lagt sjálfan sig í hættu gagnvart hópnum sem tekur þátt í eineltinu. Oft er enginn varnarmaður en ef hann er til staðar þá er það mikil aðstoð fyrir þolanda.
Þolandi er sá sem stríðni og einelti beinist að. Honum líður oftast illa og kvíðir því að fara í skólann. Eftir því sem eineltið er meira og stendur í lengri tíma því meira er þolandi líklegur að skaðast tilfinningalega og samskiptalega. Allir geta orðið fyrir einelti.
Aðgerðir vegna eineltis
Fyrirbyggjandi aðgerðir:
Umsjónarkennurum ber að vinna gegn einelti með fyrirbyggjandi aðgerðum, t.d. með því að hafa bekkjarfund að minnsta kosti einu sinni í mánuði og með því að fjalla sérstaklega um samskipti í lífsleiknitímum. Mjög mikilvægt er að nemendur ásamt umsjónarkennara búi til bekkjarreglur sem hanga uppi í öllum skólastofum. Umsjónarkennari fræði nemendur reglulega um einelti og afleiðingar þess.
Umsjónarkennari fylgist með líðan nemenda sinna og breytingum í félagahópi. Umsjónarkennari leggi fyrir að minnsta kosti einu sinni á ári tengsla- og líðankannanir í bekknum sínum.
Tilkynningaskylda:
Ef starfsfólk skólans, foreldrar eða nemendur verða varir við einelti meðal nemenda er öll vinna háð því að eineltið komist sem fyrst upp og í því ljósi ber viðkomandi aðila að tilkynna það til umsjónarkennara. Til þess að tilkynningin fái efnislega meðferð verður að fylla út eyðublað þess efnis, umsókn um aðstoð vegna eineltis. Eyðublaðið má bæði nálgast hjá ritara og á heimasíðu skólans.
Rannsóknarskylda:
Þegar upplýsingar berast um ætlað einelti skal ætíð rannsaka og sannreyna málsatvik:
– Umsjónarkennari aflar sér nánari upplýsinga um málið, t.d. með
viðtölum við hugsanlegan þolanda, samnemendur, foreldra og
starfsfólk.
– Umsjónarkennari sér um að fram fari skráning á hegðun og
samskiptum þeirra nemenda sem í hlut eiga t.d. í gæslu, íþróttahúsi og matsal.
– Umsjónarkennari ákveður næstu skref eftir eðli málsins.
Aðgerðir:
a) Ef umsjónarkennari metur í samráði við aðra starfsmenn skólans að ekki sé um einelti að ræða skal foreldrum tilkynnt það. Ef foreldrar eru ósáttir við þá niðurstöðu er þeim bent á að þeir geta leitað til næsta yfirmanns skólastjóra með málið.
b) Ef um staðfest einelti er að ræða hefur umsjónarkennari aðgang að skólasálfræðingi skólans, hjúkrunarfræðingi skólans, félagsþjónustu sveitarfélagsins og skólastjóra til að styðja sig og aðstoða í þeirri vinnu sem fram fer við að uppræta eineltið. Mikilvægt að allir
málsaðilar (þolendur og gerendur) fái stuðning í gegnum ferlið.
c) Umsjónarkennari kemur þolanda í skjól og reynir að leysa málið með viðtölum við þolendur og gerendur. Geranda skal gert ljóst að einelti verði ekki liðið.
d) Umsjónarkennari stýrir fræðslu í bekknum sínum um samskipti og einelti.
e) Umsjónarkennari gerir öðrum kennurum málsaðila grein fyrir eineltinu og leitar aðstoðar þess.
f) Umsjónarkennari leitar aðstoðar meðal annarra starfsmanna skólans t.d. starfsfólks sem sinnir gæslu í frímínútum, matsal og íþróttamiðstöð eftir því sem þörf þykir.
g) Umsjónarkennari gerir foreldrum viðkomandi aðila bæði þolanda og geranda / gerendum grein fyrir málinu á fundum eða bréf- /símleiðis.
h) Umsjónarkennari fylgir málinu eftir í nokkrar vikur. Góð eftirfylgni og stuðningur skiptir miklu máli.
i) Alltaf skal skrá málsatvik og vinnuferli í dagbók á Mentor af umsjónarkennara og foreldrar eru einnig hvattir til að skrá hjá sér málsatvik.
Eineltisráð:
Telji umsjónarkennari sig þurfa aðstoð við að leiðrétta samskipti og vinna í eineltismálum skal hann hafa samband við eineltisráð. Hlutverk eineltisráðs er að aðstoða umsjónarkennara við lausn eineltismála t.d. með því að móta verkferla með umsjónarkennara, taka þátt í viðtölum við nemendur og foreldra, vinna að fræðslu meðal nemenda o.fl. Eineltisráð er skipað list- og verkgreinakennurum. Ef þörf er á skólastjóra, skólahjúkrunarfræðingi og öðrum aðilum við lausn málsins eru þeir kallaðir til vinnu með ráðinu.
Eftir eðli máls:
Ofbeldismál þar sem börn verða fyrir líkamlegum áverkum eða öðru ólöglegu athæfi í skólanum skulu alltaf tilkynnt viðkomandi foreldrum. Jafnframt áskilur skólinn sér allan rétt til að grípa til viðeigandi aðgerða gagnvart gerendum í slíkum málum. Skólinn mun einnig tilkynna þau mál er geta varðað hegningarlög til viðkomandi yfirvalda, lögreglu og/eða barnaverndaryfirvalda.