Námsmat

Námsmat Auðarskóla fylgir aðalnámskrá grunnskóla um mat á hæfni og framförum nemenda og er unnið eftir aðferðum leiðsagnarmats https://adalnamskra.is/adalnamskra-grunnskola/kafli-9

Megintilgangur námsmats er að kanna stöðu nemenda og leiðbeina þeim um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Námsmat á að veita nemendum og aðstandendum upplýsingar um námsgengi einstaklinganna. Auðarskóli leggur metnað sinn í það að námsmat sé fjölbreytt og sanngjarnt og nemendur hafi tækifæri á að sýna þekkingu sína og hæfni með vinnu við fjölbreytt og samþætt verkefni. 

  • Samkvæmt aðalnámskrá er það hæfni sem á að meta ekki fjöldi eða magn þekkingaratriða 
  • Hæfni samanstendur af þekkingu og leikni. T.d. á ekki mæla hversu vel þú getur munað uppskrift utanað, heldur hversu leikin(n) þú ert að baka eftir uppskriftinni og hversu vel hefur tekist til við baksturinn 
  • Hæfniviðmið fyrir allar greinar birtast í aðalnámskrá 
  • Einkunnir skal ekki reikna heldur skal styðjast við fyrirfram skilgreindar hæfnilýsingar 

Lögð er megináhersla á hæfnina og er hæfnieinkunnin mat skólans/ kennarans á henni. Hæfnieinkunn er þess vegna ekki hægt að reikna út sem meðaltal út úr verkefnum sem nemandinn hefur unnið um veturinn. Hugmyndin er ekki að t.d. að telja stig ,að normaldreifa, að reikna hlutfall o.s.fr.v. Námsgreinar og námsefnið eru hjálpartæki til að ná hæfniviðmiðum. 

 

METANLEG HÆFNIVIÐMIР 

Auðarskóli gefur nemendum lokaeinkunn eftir metanlegum hæfniviðmiðum í 1.-3. bekk, 5.-6. bekk og 8.-9. bekk. Notast er við matskvarða sem sýna 5 tákn þar sem notast er við metanleg hæfniviðmið.  Við lok 4. 7. og 10. bekkjar skal notast við Matsviðmið og bókstafseinkunn gefin. Neðangreindan matskvarða skal nota til að finna þá einkunn sem best passar hæfni nemandans. 

MATSVIÐMIР 

Matsviðmið ná yfir lok hvers stigs, yngsta stig (4. bekkur), miðstig (7. bekkur) og elsta stig  (10. bekkur) og fá nemendur bókstarfseinkunn miðað við matsviðmið. Í aðalnámskrá grunnskóla eru matsviðmið sett fram fyrir námsgreinar, námssvið og lykilhæfni. Matsviðmið eru lýsing á, hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni, á valdi sínu. 

Matsviðmið lýsa hæfni á kvarða, notaður er kvarðinn: 


​A = Framúrskarandi: Nemandi hefur náð markmiðum og meira en það.
B+ = Hæfni náð/til fyrirmyndar: Nemandi hefur náð markmiðum.
B = Á mjög góðri leið/hæfni náð: Nemandi hefur náð markmiðum að mestu leyti.
C+ = Á góðri leið/viðunandi: Nemandi hefur ekki náð markmiðum að öllu leyti.
C = Þarfnast úrbóta: Nemandi hefur ekki náð markmiðum.                                                                                 
D = Hæfni ekki náð: Vantar mikið uppá að markmiðum hafi verið náð. Skóli gerir þá sérstaka grein fyrir hæfni viðkomandi nemanda.

Vitnisburður við lok 10. bekkjar er hafður til hliðsjónar við innritun nemenda í framhaldsskóla og val á námsbrautum. 

NÁMSMAT FYRIR NEMENDUR MEÐ AÐLAGAÐ NÁMSEFNI 

Í grunnskólum er nokkur hópur nemenda sem stundar ekki nám sitt að fullu samkvæmt skilgreindum hæfni- og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla, heldur að hluta eða öllu leyti eftir aðlagaðri námskrá og viðmiðum í samræmi við metnar sérþarfir. Við námsmat og vitnisburð við lok grunnskóla skal taka tillit til þessa á þann hátt að merkja skal vitnisburðinn með stjörnu (*) á rafrænu útskriftarskírteini. Þannig fá nemendur A*, B*, C* eða D* í samræmi við hvernig þeir ná einstaklingsbundnum matsviðmiðum sínum. Hafi nemandi formlega fengið undanþágu frá tilteknum námssviðum vegna sérþarfa þá skal það koma fram á útskriftarskírteininu. 

Einnig þarf að koma fram á skírteininu hvort útbúin hafi verið einstaklingsbundin tilfærsluáætlun um nemendur í samræmi við ákvæði reglugerðar um stuðning við nemendur með sérþarfir. Stjörnumerktar einkunnir auk einkunnarinnar D fela í sér að skóli verður að skrá rafrænt í skírteini hvað liggur að baki stjörnumerkta vitnisburðinum, þ.e. lýsingu á matsviðmiðinu. Stjörnumerking veitir nemendum sem um ræðir og forráðamönnum þeirra upplýsingar um stöðu nemandans og getur einnig nýst við innritun í framhaldsskólanám við hæfi.