Hinseginfræðsla í Auðarskóla

admin Fréttir

Miðvikudaginn 16. október n.k. kemur hann Guðmundur Kári Þorgrímsson, sem við þekkjum flest hér í Dalabyggð, með hinseginfræðslu fyrir alla nemendur grunnskóladeildar Auðarskóla.

Hann mun svo einnig bjóða foreldrum og starfsfólki skólans á slíka fræðslu klukkan 17:00 þennan sama dag, í Auðarskóla.
 
Guðmundur Kári er tvítugur og hefur verið með hinseginfræðslu í Reykjavík og á Akureyri undanfarna vetur. Akureyrarbær hefur boðið honum að koma síðastliðin þrjú ár með fræðslu fyrir alla 9. bekkinga í grunnskólum Akureyrar.
 
Nú er hann að fara af stað með verkefni þar sem hann stefnir á að bjóða upp á hinseginfræðslu í grunnskólum landsbyggðarinnar sem víðast um landið.
 
Fræðslan er hugsuð fyrir unglinga í 9. bekk, en hann hefur núna aðlagað fræsðluna fyrir fleiri árganga þannig að allir okkar grunnskólanemendur njóti hennar. Hún er létt, skemmtileg og fræðandi. Ásamt fræðilegum staðreyndum deilir hann reynslu sinni sem samkynhneigðum strák sem ólst upp í litlu bæjarfélagi úti á landi.
 
Fræðslan er sett þannig upp að hún reiðir sig mjög mikið á þátttöku nemenda í lifandi og áhugaverðum umræðum í gegnum fræðsluna. Fræðslan tekur um eina klukkustund fyrir hvern hóp, þó aðeins mismunandi eftir virkni og áhuga hópsins. Niðurstaðan sem vonast er eftir, er að skapa lifandi og opna umræðu um hinseginleikann sem mun lifa. Að fólk geti talað um þetta málefni á uppbyggjandi, eðlilegri og einlægari máta.
 
Fræðslurnar á Akureyri hafa gengið vel og segja kennarar grunnskólanna að mikil umræða hafi brotist út eftir fræðsluna og að umræðan um hinsegin samfélagið sé í heild sinni betra.
 
Hér að neðan eru nokkrar umsagnir frá starfsmönnum Akureyrarbæjar:
 
Hinsegin fræðslan sem Guðmundur Kári hefur flutt fyrir unglinga í 9. bekk á Akureyri undanfarin ár nær mjög vel til þeirra. Frásögn hans er einlæg og fræðandi og hann er ófeiminn að svara spurningum unglinganna á hispurslausan hátt án þess að fara yfir strikið.“
– Forvarna- og félagsmálaráðgjafar á Akureyri
 
Gummi er svaka skemmtilegur og það er gott að spjalla við hann. Gott að fá ekki alltaf fullorðna til að koma og vera með fyrirlestur.“
– Nemandi í 9. bekk á Akureyri
  
Hann var mjög skemmtilegur. Flottur gaur. Svaraði vel, fór aldrei yfir strikið“.
– Námsráðgjafi
 
Ánægð með Gumma, fyndinn og nær vel til krakkanna. Fjölbreytt og flott fræðsla.“
– Námsráðgjafi
 
Við bjóðum Guðmund Kára hjartanlega velkominn til okkar hér í Dalabyggð og vonumst til að sjá sem flesta á fræðslunni hans klukkan 17:00 þann 16. október n.k.