Heilsugæsla

                                                                                                  Kynning fyrir foreldra-Heilsuvernd grunnskólabarna-Bólusetningar-Pdf
Heilsuvernd skólabarna í Auðarskóla er sinnt af Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Búðardal, Skólahjúkrunarfræðingur er Þórunn Björk Einarsdóttir. Netfang skólahjúkrunarfræðings er: thorunn.einarsdottir@hve.is.
Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd og hluti af heilsugæslunni. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Skólahjúkrunarfræðingur vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar
Starfsemi heilsuverndar skólabarna er skv. lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda. Í henni felast heilsufarsskoðanir, bólusetningar og heilbrigðisfræðsla, ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans.

6H heilsunnar – heilbrigðisfræðsla
Heilsuvernd skólabarna sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta ýmist í hópi eða á einstaklingsgrunni. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-h heilsunnar sem er samstarfsverkefni Heilsugæslunnar og embættis landlæknis. Áherslur fræðslunnar eru hollusta-hvíld-hreyfing-hreinlæti-hamingja- hugrekki og kynheilbrigði. Eftir fræðslu fá foreldrar sent bréf og gefst þeim þá kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu.

Heilsufarsskoðanir
1. bekkur. Mæld hæð, þyngd og sjón. Lífsstílsviðtal.
4. bekkur. Mæld hæð, þyngd og sjón. Lífsstílsviðtal.
7. bekkur. Mæld hæð, þyngd og sjón. Lífsstílsviðtal.
9. bekkur. Mæld hæð, þyngd og sjón. Lífsstílsviðtal.
Hjúkrunarfræðingur sér um skoðanir og annað eftirlit samkvæmt tillögum landlæknis. Skólaskoðanir fara fram á skólatíma og eru ekki auglýstar sérstaklega nema hjá þeim nemendum sem verða bólusettir.

Bólusetningar
7. bekkur: Mislingar, rauðir hundar og hettusótt (ein sprauta). Stúlkur eru bólusettar gegn HPV (human papiloma virus) til að minnka líkur á leghálskrabbameini (tvær sprautur á 6 mánaða tímabili).
9. bekkur: Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta).
Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing. Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til.

Fræðsla og forvarnir
Skólahjúkrunarfræðingur sinni skipulagðri heilbrigðisfræðslu í öllum bekkjum skólans. Aðaláherslan er á 6H heilsunnar en hugmyndafræðin byggir á því að hugsa vel um heilsuna og fyrirbyggja þannig sjúkdóma. 6H heilsunnar eru: Hreyfing, hvíld, hamingja, hreinlæti, hugrekki og hollusta. Skólahjúkrunarfræðingur sinnir einnig kynfræðslu í efri bekkjum skólans þar sem farið er yfir kynþroskann, kynheilbrigði, kynsjúkdóma, getnaðarvarnir ofl.
Börn og foreldrar geta leitað eftir ráðgjöf og stuðning skólahjúkrunarfræðings hvenær sem þurfa þykir yfir skólaárið.
Nánari upplýsingar má sjá á:
www.heilsuvera.is
www.landlaeknir.is

Lyfjagjafir
Sjaldgæft er að börn þurfi að taka lyf á skólatíma. Þurfi börn á því að halda er foreldrum bent á að hafa samband við umsjónarkennara eða skólastjóra og kynna sér tilmæli Landlæknis um lyfjagjafir í skólum.