Hagnýt atriði

Fatnaður og útivera

Fatnaður

Nauðsynlegt er að börnin hafi með sér viðeigandi klæðnað í leikskólann sem miðast við veðurfar hverju sinni. Áhersla er lögð á að börnin geti tekið þátt í starfi leikskólans bæði úti og inni. Mikilvægt er að börnin séu með aukafatnað ef óhöpp verða. Einnig er gott að merkja fatnað barnanna til að koma í veg fyrir að fatnaður ruglist saman við fatnað annarra barna. Aukafatnaður er geymdur í plastboxum í hólfum barna í fataklefa. Leiðbeinandi gátlisti er á plastboxum um hvaða aukafatnað er heppilegt að koma með. Foreldrar þurfa reglulega að yfirfara aukafatnað barna sinna. Á föstudögum þurfa foreldrar að tæma fatahólf barna sinna í leikskólanum.

Útivera

Börnin fara út á hverjum degi jafnvel þó að eitthvað smávegis er að veðri. Útivera styrkir og eflir, eykur matarlyst og býður upp á holla hreyfingu sem öllum er nauðsynleg. Það er ekkert sem bendir til þess að börn sýkist fremur í útilofti en innandyra. Börn sem dvelja mikið innandyra eru kulsælli en þau börn sem vön eru útiveru. Vert er að geta þess að börn sem dvelja mikið inni missa af hollu og eðlilegu samneyti við félaga sína. Með þetta í huga eru foreldrar beðnir um að hafa samráð við starfsfólk áður en beðið er um að hafa barnið inni vegna smávægilegra kvilla. Börn fá ekki að vera inni nema eftir að hafa verið veik heima með hita, þá mega þau vera inni einn dag. Tekið er tillit til aðstæðna hverju sinni.

 

Sérfræðiþjónusta

Um stoðþjónustu

Þau börn sem þurfa á sérkennslu/þjálfun að halda fá hana samkvæmt lögum um leikskóla. Í leikskólanum er sérkennsla/þjálfun undir handleiðslu leikskólakennara í samvinnu við fagaðila og eru þeir ásamt leikskólastjóra og deildarstjóra ábyrgir fyrir því að gerðar séu áætlanir vegna barnanna og þeim framfylgt. Í foreldraviðtali er leitað eftir áliti foreldra og rætt um stöðu barnsins í þroska og námi. Ef í ljós kemur að framfarir barnsins eru ekki sem skyldi eða áhyggjuefni foreldra mikil er leyfi foreldra fengið til að sérfræðingur geri formlega athugun á þroska barnsins í leikskólanum með viðeigandi þroskaprófi eða matstæki. Slíkt mat getur farið fram með þátttöku foreldra. Ef niðurstöður athugana sýna að barn þarfnist sérkennslu/þjálfunar í leikskólanum eru gerðar ráðstafanir sem miða að því að kennslan geti farið fram innan ramma leikskólastarfsins.

Talmeinafræðingur

Talmeinafræðingur Auðarskóla kemur reglulega til starfa í skólanum. Mál er varða málþroska og framburð heyra undir hans sérfræði. Forráðamenn barna, starfsmenn leikskóla, félagsþjónustu og heilsugæslu geta átt frumkvæði að athugun og greiningu á einstökum nemendum. Beiðnir til hans fara í gegnum deildarstjóra og/eða stjórnendur skólans.

Sálfræðiþjónusta

Skólasálfræðingur Auðarskóla kemur reglulega til starfa í skólanum. Mál er varða þroska og hegðun heyra undir hans sérfræði. Sálfræðiþjónusta (greining og ráðgjöf) gagnvart einstökum nemendum er gerð í kjölfar beiðni, sem þarf að gera á þar til gerðu eyðublaði sem fæst í skólanum. Forráðamenn barna, starfsmenn leikskóla, félagsþjónustu og heilsugæslu geta átt frumkvæði að athugun og greiningu á einstökum nemendum. Beiðnir fara í gegnum deildarstjóra og/eða stjórnendur skólans.

Félagsþjónusta

Samningur er við Borgarbyggð um félagsþjónustu og þjónustu í barnaverndarmálum. Undir þann samning falla fjárhagsaðstoð, félagsleg ráðgjöf, félagsleg liðveisla og annar stuðningur við fatlað fólk og fjölskyldur fatlaðra barna, leyfisveitingar vegna daggæslu í heimahúsum og barnavernd. Fulltrúi félagsþjónusunnar er á hálfsmánaðarfresti til viðtals. Upplýsingar um komudaga eru á www.dalir.is