Gegn einelti

Áætlun Auðarskóla                                  Gegn einelti-Áætlun Auðarskóla-pdf

Stefna

Einelti og annað ofbeldi líkamlegt sem andlegt er ekki liðið í Auðarskóla. Leitað verður stöðugt ráða til að fyrirbyggja einelti og brugðist verður við þeim málum sem upp kunna að koma án tafar. Frá ungaaldri verði nemendum skólans markvisst kennd góð samskipti. Nemendur skulu hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og ofbeldi í verki með því að bregðast við til hjálpar og láta vita. Nemendum skal gert grein fyrir því að það að skilja kerfisbundið útundan og virða aðra ekki viðlits er einelti. Auðarskóli á að vera öruggur vinnustaður, þar sem starfið mótast af virðingu og umhyggju fyrir öllum. Það er mikilvægt að foreldrar láti okkur vita ef þeir hafa grun um einelti eða samskiptaörðuleika hjá börnum í skólanum. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir einelti og í því samhengi er mikilvægt fyrir foreldra að láta okkur vita um grun um eitthvað.

Skilgreining

Einelti er endurtekið, andlegt eða líkamlegt ofbeldi og/eða félagsleg útskúfun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Einelti á sér stað á milli tveggja einstaklinga eða einstaklings og hóps. Einelti er ekki bundið við skóla, heldur getur verið á vinnustöðum og í heilu samfélögunum.
Birtingarmyndir eineltis geta verið margar:

  • Líkamlegt t.d. barsmíðar, spörk, hrindingar og að hindra ferðir einstaklings.
  • Munnlegt t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir, baktal og endurtekin stríðni.
  • Skriflegt t.d. niðrandi tölvuskeyti, sms-skilaboð, krot og bréfasendingar. Sem og öll rafræn samskipti.
  • Óbeint t.d., með útskúfun eða útilokun úr félagahóp. Fara framfyrir aðra í röð, neita að sitja hjá viðkomandi eða að vinna með honum í hópavinnu.
  • Efnislegt t.d. þegar eigum barns stolið, þær faldar eða þær eyðilagðar. Fjárkúgun.
  • Andlegt t.d. þegar viðmót og samskipti einhvers hafa niðurbrjótandi áhrif á einstakling og gengur gegn réttlætiskennd hans og sjálfsvirðingu.
Fyrirbyggjandi aðgerðir

Umsjónarkennari: Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki, þótt allt starfsfólk beri sameiginlega ábyrgð á eftirfylgni og framkvæmd eineltisáætlunarinnar. Eftirfarandi þættir skulu ávalt vera til staðar í bekkjarstarfinu.
Fræðsla: Fræðsla um einelti og samskipti heyrir undir lífsleikni-kennsluna, en skal þó ávallt höfð í huga við allt starf með nemendum. Námskrá í lífsleikni markar fræðsluna og tryggir samfellu.
Bekkjarreglur: Allar bekkjardeildir skulu ræða og setja sér bekkjareglur gegn einelti að hausti og útbúa veggspjöld með þeim til þess að hengja upp í stofum sínum.
Bekkjarfundir: Bekkjarfundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni í mánuði, í öllum bekkjum. Lengd og umræða fer eftir þroska, aldri og öðrum aðstæðum. Nemendur fá fræðslu um einelti, eðli eineltis, birtingarform þess og afleiðingar fyrir gerendur og þolendur. Auk þess eru samskipti og skólabragur viðfangsefni bekkjarfunda. Brýna skal vel fyrir nemendum að láta umsjónarkennara vita ef grunur um einelti kemur upp, eða láta foreldra vita þannig að þeir geti haft samband við umsjónarkennara.

Starfsfólk

Einelti þrífst vegna aðgerðarleysi fjöldans. Þess vegna þurfa allir að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Efla þarf umburðarlyndi, virðingu og samkennd meðal barnanna.
Þar sem samræmi og samstarf einkennir starf þeirra sem vinna með börnunum á einelti erfitt uppdráttar. Ef ekki er tekið á málum strax er hætta á að eineltið breiðist út og fleiri og fleiri leggist á sveif með gerandanum.
Einelti á einnig erfitt uppdráttar þar sem jákvæður agi, festa, velvilji, hrós og væntumþykja einkennir stjórnunarhætti.

Nemendur

Stærsti hluti barna tekur ekki beinan þátt í einelti heldur stendur til hliðar og horfir á. Það eru einmitt þessi börn sem geta stöðvað einelti með því að taka afstöðu gegn því. Fórnarlömbunum finnst nefnilega þessi börn oft taka afstöðu gegn sér. Þó svo að áhorfandi að einelti eigi ekki sök á neinu í þessu sambandi er honum skylt að bregðast við, sem réttsýnum borgara, án þess að þurfa að fara að leika einhverja hetju. Nemendur geta tekið afstöðu gegn einelti á margan hátt:

  • Hleypa þolendum inn í félagahópinn.
  • Neita að taka þátt í einelti.
  • Sýna vanþóknun sína á hvers kyns einelti án orða, með fasi, svipbrigðum og athöfnum.
  • Kalla á hjálp frá fullorðnum.
  • Biðja geranda að láta þolanda í friði.
  • Hjálpa þolanda að forða sér úr aðstæðunum.
  • Koma í veg fyrir samskipti á milli geranda og þolanda.
  • Hvetja aðra nemendur til að taka afstöðu gegn hegðun gerandans.
  • Fylgja þolanda til einhvers af starfsfólki skólans og hvetja hann til að segja frá eineltinu.
  • Gagnrýna hegðun geranda.
Samskiptamynstur í einelti

Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir og til að uppræta það er nauðsynlegt að hafa skilning á samskiptum milli einstaklinga og þeim ólíku hlutverkum sem hver og einn gegnir. Til að einelti geti átt sér stað þarf þolanda og geranda, oft eru líka aðstoðarmenn og meðhjálparar. Helstu hlutverk sem geta komið fram í eineltismálum eru eftirfarandi:

  • Gerandi beitir líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi gagnvart öðrum og oft ítrekað gagnvart sama aðilanum. Einelti getur falist í skemmdum eða þjófnaði á eigum viðkomandi (skólataska, föt, nesti, námsgögn og svo framvegis), uppnefnum, líkamsmeiðingum af einhverju tagi, félagslegri útilokun og fleiru. Börn sem eiga erfitt með að setja sig í spor annarra eru líklegri til að leggja aðra í einelti.
  • Aðstoðarmaður aðstoðar geranda í eineltinu og tekur beinan þátt í því, fylgir honum í einu og öllu. Hann leiðist út í ákveðna hegðun, ef til vill fyrir forvitni sakir eða vegna múgæsingar. Hann getur líka tekið þátt vegna ótta við geranda og/eða ósk um meiri vinsældir og styrk innan bekkjar. Aðstoðarmaður er oft á móti því sem er í gangi en tekur engu að síður þátt.
  • Meðhjálpari fylgist með úr fjarlægð, tekur ekki beinan þátt í athöfnum geranda og aðstoðarmanns en hvetur til athafna með látbragði, hlátri, aðdáun, líkamstjáningu og/eða orðum. Hann telur sig ekki bera ábyrgð á því sem er í gangi.
  • Áhorfandi fylgist með, kannar hvað er að gerast en vill ekki skipta sér af því. Hann kemur þolanda ekki til hjálpar.
  • Varnarmaður er sá sem kemur þolanda til hjálpar, ver hann og mótmælir eineltinu. Þannig getur hann lagt sjálfan sig í hættu gagnvart hópnum sem tekur þátt í eineltinu. Oft er enginn varnarmaður en ef hann er til staðar þá er það mikil aðstoð fyrir þolanda.
  • Þolandi er sá sem stríðni og einelti beinist að. Honum líður oftast illa og kvíðir því að fara í skólann. Eftir því sem eineltið er meira og stendur í lengri tíma því meira er þolandi líklegur að skaðast tilfinningalega og samskiptalega. Allir geta orðið fyrir einelti.
Aðgerðir vegna eineltis

Fyrirbyggjandi aðgerðir:
Umsjónarkennurum ber að vinna gegn einelti með fyrirbyggjandi aðgerðum, t.d. með því að hafa bekkjarfund að minnsta kosti einu sinni í mánuði og með því að fjalla sérstaklega um samskipti í lífsleiknitímum. Mjög mikilvægt er að nemendur ásamt umsjónarkennara búi til bekkjarreglur sem hanga uppi í öllum skólastofum. Umsjónarkennari fræði nemendur reglulega um einelti og afleiðingar þess.
Umsjónarkennari fylgist með líðan nemenda sinna og breytingum í félagahópi. Umsjónarkennari leggi fyrir að minnsta kosti einu sinni á ári tengsla- og líðankannanir í bekknum sínum.

Tilkynningaskylda:
Ef starfsfólk skólans, foreldrar eða nemendur verða varir við einelti meðal nemenda er öll vinna háð því að eineltið komist sem fyrst upp og í því ljósi ber viðkomandi aðila að tilkynna það til umsjónarkennara. Til þess að tilkynningin fái efnislega meðferð verður að fylla út eyðublað þess efnis, umsókn um aðstoð vegna eineltis. Eyðublaðið má bæði nálgast hjá ritara og á heimasíðu skólans.

Rannsóknarskylda:
Þegar upplýsingar berast um ætlað einelti skal ætíð rannsaka og sannreyna málsatvik:

  • Umsjónarkennari aflar sér nánari upplýsinga um málið, t.d. með viðtölum við hugsanlegan þolanda, samnemendur, foreldra og starfsfólk.
  • Umsjónarkennari sér um að fram fari skráning á hegðun og samskiptum þeirra nemenda sem í hlut eiga t.d. í gæslu, íþróttahúsi og matsal.
  • Umsjónarkennari ákveður næstu skref eftir eðli málsins.
Aðgerðir
  1. Ef umsjónarkennari metur í samráði við aðra starfsmenn skólans að ekki sé um einelti að ræða skal foreldrum tilkynnt það. Ef foreldrar eru ósáttir við þá niðurstöðu er þeim bent á að þeir geta leitað til næsta yfirmanns skólastjóra með málið.
  2. Ef um staðfest einelti er að ræða hefur umsjónarkennari aðgang að skólasálfræðingi skólans, hjúkrunarfræðingi skólans, félagsþjónustu sveitarfélagsins og skólastjóra til að styðja sig og aðstoða í þeirri vinnu sem fram fer við að uppræta eineltið. Mikilvægt að allir málsaðilar (þolendur og gerendur) fái stuðning í gegnum ferlið.
  3. Umsjónarkennari kemur þolanda í skjól og reynir að leysa málið með viðtölum við þolendur og gerendur. Geranda skal gert ljóst að einelti verði ekki liðið.
  4. Umsjónarkennari stýrir fræðslu í bekknum sínum um samskipti og einelti.
  5. Umsjónarkennari gerir öðrum kennurum málsaðila grein fyrir eineltinu og leitar aðstoðar þess.
  6. Umsjónarkennari leitar aðstoðar meðal annarra starfsmanna skólans t.d. starfsfólks sem sinnir gæslu í frímínútum, matsal og íþróttamiðstöð eftir því sem þörf þykir.
  7. Umsjónarkennari gerir foreldrum viðkomandi aðila bæði þolanda og geranda / gerendum grein fyrir málinu á fundum eða bréf- /símleiðis.
  8. Umsjónarkennari fylgir málinu eftir í nokkrar vikur. Góð eftirfylgni og stuðningur skiptir miklu máli.
  9. Alltaf skal skrá málsatvik og vinnuferli í dagbók á Mentor af umsjónarkennara og foreldrar eru einnig hvattir til að skrá hjá sér málsatvik.
Eineltisráð

Telji umsjónarkennari sig þurfa aðstoð við að leiðrétta samskipti og vinna í eineltismálum skal hann hafa samband við eineltisráð. Hlutverk eineltisráðs er að aðstoða umsjónarkennara við lausn eineltismála t.d. með því að móta verkferla með umsjónarkennara, taka þátt í viðtölum við nemendur og foreldra, vinna að fræðslu meðal nemenda o.fl. Eineltisráð er skipað list- og verkgreinakennurum. Ef þörf er á skólastjóra, skólahjúkrunarfræðingi og öðrum aðilum við lausn málsins eru þeir kallaðir til vinnu með ráðinu.

Eftir eðli máls

Ofbeldismál þar sem börn verða fyrir líkamlegum áverkum eða öðru ólöglegu athæfi í skólanum skulu alltaf tilkynnt viðkomandi foreldrum. Jafnframt áskilur skólinn sér allan rétt til að grípa til viðeigandi aðgerða gagnvart gerendum í slíkum málum. Skólinn mun einnig tilkynna þau mál er geta varðað hegningarlög til viðkomandi yfirvalda, lögreglu og/eða barnaverndaryfirvalda.

 

Að þekkja einelti

Þolandi: Barn sem verður fyrir einelti líður yfirleitt mjög illa. Barnið er oft hrætt, einmana og með lítið sjálfstraust. Það kvíðir því að fara í skólann, er gjarnan spennt, óöruggt og verður jafnvel veikt án sýnilegra sjúkdómseinkenna. Langvarandi einelti getur leitt til alvarlegra vandamála eins og þunglyndis og neikvæðrar hegðunar. Þolendur eineltis skammast sín oft fyrir eineltið. Þessi skömm verður til þess að viðkomandi kennir sjálfum sér um og segir því ekki frá eineltinu. Eineltið verður þá dulið öllum í lengri tíma og uppgvötast þá ekki fyrr en illa er komið. Oftast er einelti án nokkurs tilefnis.
Skólafólk og aðrir sem þekkja til eineltis læra oft að þekkja ýmis einkenni hjá þolanda sem bendir til þess að hann sé lagður í einelti. Eftirfarandi listi er ekki tæmandi en inniheldur atriði sem vert er að vera á verði gagnvart.

Einkenni heima:

  • Hann á erfitt með svefn á kvöldin. Grætur þá gjarnan einn.
  • Hann er oft þungur upp á morgnana og lystalaus.
  • Depurð og kvíði einkenna hann. Verður daufur og áhugalaus.
  • Hann leikur sér sífellt minna við önnur börn.
  • Hann sendir nær aldrei SMS skilaboð.
  • Hann hættir að reyna að spyrja eftir félögum sínum og enginn spyr eftir honum.
  • Hann kvíðir afmælisdögum sínum og vill stundum ekki halda upp á þá.
  • Honum er sjaldan boðið í afmæli annarra. Ef það gerist þá vill hann kannski ekki fara.
  • Hann verður erfiður viðureignar og neitar að segja hvað amar að.
  • Hann vill láta aka sér eða fylgja sér úr og í skóla.
  • Hann neitar að fara í skólann og gefur upp ýmsar ástæður aðrar en stríðni og einelti.
  • Hann „týnir“ fötunum sínum, kemur heim með skemmdar bækur eða rifin föt og jafnvel skrámur sem hann getur ekki útskýrt.

Einkenni í skóla:

  • Hann fer krókaleiðir í og úr skólanum.
  • Hann kemur iðulega of seint í skóla og/eða of seint í kennslustundir.
  • Hann fer langsíðastur/langfyrstur inn í búningsherbergi í tengslum við íþróttir og sund.
  • Hann fer alltaf síðastur úr kennslustofu í frímínútur og lætur stundum reka sig til þess.
  • Hann dvelur langdvölum á salernum í frímínútum og matartímum.
  • Hann stendur einn í skugga eða skotum innandyra svo sem minnst beri á honum.
  • Hann felur sig á milli bifreiða í frímínútum án útskýringa.
  • Hann er einn á skólalóðinni og stendur þá gjarnan nálægt starfsmanni eða útidyrum.
  • Námsáhugi minnkar, einkunnir lækka og mætingu verður jafnvel ábótavant.
  • Hann samlagast illa hópastarfi og leggur lítið til málanna.
  • Hann kvartar oft um hausverk eða magaverk og óskar eftir því að hringja heim.
  • Hann vill ekki taka þátt í félagsstarfi í skólanum með útskýringunum “að hann langi ekki”.
  • Hann er oft veikur þegar kemur að vettvangsferðum eða skólaferðum ýmisskonar.

Gerandi: Börn sem leggja önnur börn í einelti eru í ýmsum áhættuhópum. Gerendur í eineltismálum njóta gjarnan vinsælda bekkjarfélaga sinna, sérstaklega í 4.–7. bekk en eftir það dvína vinsældirnar mjög með aldrinum. Þau einangrast félagslega. Þau auka líkur sínar á að verða kærð fyrir ofbeldisbrot eða fá fangelsisdóm. Þau eru líklegri til að eiga við geðrænan vanda að stríða og misnota vímuefni á fullorðinsárum. Einkenni geranda eru afar mismunandi, þvi ekki beita allir gerendur líkamlegu ofbeldi. Eins geta gerendur í sumum tilvikum verið afar venjuleg börn sem hafa leiðst út í eineltið af einhverjum ástæðum en eru fljót að hætta því ef á því er tekið. Hann hefur litla tilfinningu fyrir líðan annarra og á erfitt með að setja sig í spor annarra.

  • Viðhorf hans til ofbeldis er jákvæðara en barna almennt.
  • Hann er óþolinmóður í samskiptum.
  • Hann á erfitt með að fara eftir reglum.
  • Hann sýnir fullorðnum oft litla virðingu.
  • Hann notar hótanir til að fá vilja sínum framgengt meðal jafnaldra.
  • Hann beitir ágengri hegðun og orðbragði til að fá sínu framgengt. Ítrekað.
  • Hann er öruggur með sig og talar sig auðveldlega úr erfiðum aðstæðum.
  • Hann virðist hafa gaman af að hæðast að öðrum, brjóta gegn rétti annarra, stjórna, meiða eða gera lítið úr öðrum börnum.

Foreldrar: Foreldrar eru mjög mikilvægur hlekkur í baráttunni gegn einelti. Einelti er ekki einkamál skólans, það á sér oft stað fyrir utan skóla og út í samfélaginu. Dæmi um slíkt er í félags- og íþróttastarfi. Það ættu því allir í samfélaginu að vera á varðbergi gagnvart einelti og meðvitaðir um áhrif þess á líðan og þroska barna, hvort sem börnin eru þolendur eða gerendur, þeirra börn eða börn annarra. Í þessu tilliti er nauðsynlegt að vita að einelti og önnur ofbeldishegðun getur verið félagslega smitandi. Þ.e.a.s. ef ekki er stemmt stigu við ofbeldi á einum stað getur það orðið algengara á öðrum stöðum; breiðist út. Því er brýnt að allir bregðist við ef samskipti barnanna eru ekki með besta móti.

Allir foreldrar geta hjálpað t.d. með því að:

  • Ræða við börn sín um samskipti, kurteisi, samskiptavenjur, virðingu og hæfileikann til að setja sig í spor annarra.
  • Vera góð fyrirmynd barna sinna í samskiptum við aðra.
  • Fylgjast með líðan barnanna, vinahópi og með því að hlusta á þau.
  • Efla hjá þeim sjálfstraust, með því að ýta undir jákvæða eiginleika þeirra.
  • Fylgjast með notkun barnanna á netinu og í símum, sérstaklega skriflegum skilaboðum.
  • Bjóða að minnstkakosti öllum af sama kyni í bekknum í afmæli og partý.
  • Hvetja börnin til að vera saman í leikjum, ekki útiloka neinn og bjóða vinafáum börnum í hópinn.
  • Stofna til vinahópa í bekkjum með því markmiði að kynnast öllum börnum bekkjarins.
  • Að lesa sér til um einelti og gerast þannig læsari á slíkar aðstæður.
  • Hvetja börnin til að segja einhverjum fullorðnum frá ef einhver er lagður í einelti.
  • Hafa strax samband við skólann ef grunur vaknar um einelti hvort sem það er gegn þeirra barni eða öðru.
  • Vera í góðu og reglulegu sambandi við umsjónarkennara barnsins.
  • Ræða við og vera í góðu sambandi við aðra foreldra.

Foreldrar þolenda geta hjálpað sínu barni t.d. með því að:

  • Hafa strax samband við bekkjarkennarann og eftir eðli málsins skólastjórnendur
  • Gera barninu grein fyrir því að eineltið er ekki því að kenna.
  • Styrkja sjálfsmynd barnsins með því að ýta undir jákvæða eiginleika þess.
  • Varast að ofvernda barnið en fylgjast vel með hvað er að gerast í kringum það.
  • Hjálpa barninu að komast í samband við börn á sama aldri t.d. í gegnum íþróttir eða aðrar tómstundir.
  • Hjálpa barninu að byggja upp samband við annað barn úr bekknum t.d. með heimboðum.
  • Vera meðvitaðir um að einelti og stríðni getur leitt til þess að barnið fari í sjálfsvörn og liggi enn betur við höggi en áður. Við slíka hegðun þurfa foreldrar að hjálpa barninu að kalla fram jákvæðar leiðir til samskipta.
  • Gæta þess að barnið segi rétt frá og sleppi engu. Stundum eru þau í miklu uppnámi og eiga það til að ýkja það sem gerðist eða sleppa mikilvægum upplýsingum.
  • Muna að hrósa því fyrir að takast á við vandann. Þolandi eineltis sýnir mikið hugrekki með því að mæta í skólann á hverjum degi.
  • Varist að ræða um eineltið við aðra svo að barnið heyri, því það getur aukið kvíða þess, sérstaklega ef foreldrarnir eru örvæntingafullir og hafa litla trú á aðgerðum skólans.
  • Leita aðstoðar fagfólks innan skóla eða utan ef líðan barnsins breytist ekki þó að eineltinu sé lokið.
  • Vinna með skólanum að lausn málsins með jákvæðu hugarfari, benda á það sem betur mætti fara og það sem vel er unnið. Gæta sín á því að það sem sagt er heima um skóla, einstaka starfsmenn, aðra nemendur, skólastjórn og fleiri getur hæglega borist til eyrna barnsins. Beina kvörtunum og aðfinnslum beint til skóla.
  • Þegar eineltismál koma upp er ekki óalgengt að foreldrar hugsi um hvort þeir eigi að láta barnið skipta um skóla. Það verður auðvitað fyrst og síðast ákvörðun hverra foreldra fyrir sig. Best er hins vegar ef hægt er að stöðva eineltið innan viðkomandi skóla þannig að barnið geti verið áfram í sínum hverfisskóla. Til slíkra ráða hefur verið gripið og í sumum tilfellum hefur það gefið góða raun en í öðrum ekki. Það er því rétt að leita ráðgjafar hjá sérfræðingum innan og/eða utan skólakerfisins áður en slík ákvörðun er tekin.
  • Ef aðgerðir skólans bera ekki árangur eða foreldrar eru ekki sáttir við vinnu skólans skulu þeir leita til sveitarstjóra, sem fer með fræðslumál fyrir hönd sveitarfélagsins. Einnig er hægt að leita upplýsinga hjá Menntamálaráðuneytinu og á skrifstofu Heimilis og skóla.

Foreldrar gerenda geta hjálpað sínu barni t.d. með því að:

  • Hafa skal í huga að barnið mun sennilega reyna koma sökinni yfir á þolandann eða láta líta út sem hann eigi á einhvern hátt skilið að komið sé illa fram við hann.
  • Gera þarf barninu grein fyrir því að foreldrar líti alvarlegum augum á eineltið og sætti sig ekki við slíka hegðun þó að þolandi hafi á einhvern hátt farið í taugarnar á gerandanum eða hann eigi eitthvað sökótt við þolanda.
  • Ræða af hreinskilni við barnið um málið og láta það ítrekað vita af því að það er hegðun viðkomandi barns sem ekki er ásættanleg en ekki barnið sjálft.
  • Að reiðast og skammast eru viðbrögð sem gjarnan brjótast fram en duga skammt. Það er árangursríkara að setjast niður og ræða málið. Skýra þarf út fyrir barninu að það er alveg ólíðandi að særa aðra, bæði líkamlega og andlega. Barnið þarf að skilja að ekki skal ráðast á minnimáttar, slíkt er ómannúðlegt.
  • Að fá barnið til að setja sig í spor þolenda og ímynda sér hvernig þeim líður og efla þannig samkennd barnsins með öðrum.
  • Eyða góðum tíma með barninu og fylgjast vel með hverjum það er mest með og hvað það gerir.
  • Styrkja sjálfsmynd barnsins með því að ýta undir jákvæða eiginleika þess og hrósa því þegar það stendur sig vel. Margir gerendur eru með lágt sjálfsmat.
  • Láta væntumþykju sína skýrt í ljós bæði með orðum og látbragði.
  • Ræða hvernig barnið geti bætt fyrir hegðun sína og hvernig hægt er að láta þolandanum líða betur í skólanum.
  • Skoða eigin hegðun og hegðun annarra í fjölskyldunni.
  • Skoða hvort að það sé eitthvað í umhverfi barnsins sem veldur hjá því vanlíðan.
  • Það er mikilvægt að barnið viti að foreldrarnir eru í sambandi við kennarann og fylgjast með framgangi málsins.
  • Leita aðstoðar fagfólks innan skóla eða utan ef hegðun barnsins breytist ekki.
  • Vinna með skólanum að lausn málsins með jákvæðu hugarfari, benda á það sem betur má fara og hvað er vel unnið. Gæta sín á því að það sem sagt er heima um skóla, einstaka starfsmenn, aðra nemendur, skólastjórn og fleiri, getur hæglega borist til eyrna barnsins. Beina kvörtunum og aðfinnslum beint til skóla.

 

Gegn einelti á vinnustað