Skólareglur

Skólareglur og ferli agamála                                                              Skólareglur Auðarskóla-Pdf                                                                    Símareglur Auðarskóla 2023- Pdf

 

Skólareglur Auðarskóla gilda fyrir alla aðila sem að skólastarfinu koma og allsstaðar þar sem þeir eru á vegum skólans.

A. Námið

Við mætum stundvíslega, vel undirbúin með þau gögn sem nota skal.  Við skulum vinna eins vel og við getum.

B. Samskipti

Skólinn er vinnustaður okkar allra, hver nemandi og starfsmaður á rétt á því að fá frið við leik og störf.  Samskipti skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu og vinsemd.

C. Heilbrigði

Við tileinkum okkur hollar lífsvenjur.  Notkun sælgætis og gosdrykkja er óheimil á skólatíma, nema í undantekningartilvikum með leyfi skólastjóra. Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð.

D. Skólalóðin

Nemendur yfirgefa ekki skólalóðina á skólatíma án leyfis.  Við göngum um skólalóðina okkar af virðingu.  Nemendur eru á ábyrgð foreldra utan skólalóðar bæði í og úr skóla nema um skólaakstur sé að ræða.

E. Ábyrgð

Við berum ábyrgð á eigin framkomu og munum að skólinn ber ekki ábyrgð á persónulegum verðmætum, sem komið er með í skólann.  Óheimilt er að koma með í skólann þau tæki og tól sem geta valdið skaða.

F. Umgengni

Góð umgengni er í hávegum höfð í Auðarskóla.  Við göngum vel um skólann og berum virðingu fyrir eigum hans og hvers annars.  Við röðum skóm, göngum frá útifatnaði og hirðum vel um námsbækur og önnur gögn.

G. Ferðir

Í ferðalögum og á skemmtunum skólans eru allar reglur skólans í fullu gildi, nema annað sé tekið fram.

Starfsreglur og ástundunarkerfi

Inngangur

Innan skólans er stöðugt unnið að því að bæta aga og auka aðhald í öllu starfi með það að markmiði að skólastarfið sé skilvirkt og farsælt.
Samkvæmt reglugerð nr. 270/2000 um skólareglur í grunnskóla hefur Auðarskóli sett sér skýrar starfsreglur um hvernig unnið er með mál í kjölfar agabrots.
Skólinn lítur svo á að það sé sameiginlegt verkefni skólans og foreldra/forráðamanna að standa vel að úrvinnslu agabrota. Foreldrar/forráðamenn skulu ávallt vera upplýstir ef viðurlögum við skólareglum er beitt.

Viðurlög miðast fyrst og fremst við það að þau hjálpi nemandanum að bæta hegðun sína eða stöðu, eins og segir um í reglugerðinni, en þar segir orðrétt í 6. grein:
,,Nýta skal til fullnustu allar þær leiðir sem skólinn ræður yfir til að leita lausna og ráða bót á hegðun nemanda. Leita þarf allra mögulegra orsaka innan skólans til að viðurlög verði bæði markviss og komi nemandanum að gagni við að bæta hegðun sína.

Umsjónarkennari ber ábyrgð á og fylgist með því að umsjónarnemendur hans hlíti þeim viðurlögum sem ákveðin hafa verið.
Brot á skólareglum eru skráð í Mentor.
Viðurlög við skólareglum eiga við nemendur í 6. – 10. bekk.   (Foreldrar nemenda í  1. – 5. bekk eru látnir vita ef þeir gerast brotlegir við skólareglur.)

Starfsreglur

Almennar starfsreglur starfsfólks við brot á skólareglum eru eftirfarandi:

Við fyrsta brot fær nemandi tiltal hjá viðkomandi starfsmanni. Tiltalið er skráð í Mentor.
Láti nemandi sér ekki segjast er hann áminntur og brotið skráð í Mentor af umsjónarkennara eða stjórnanda. Láti nemandi sér enn ekki segjast eða brotið er í alvarlegri kantinum (sjá flokkun agabrota) má vísa honum úr tíma eða af vettvangi og er þá foreldrum ávallt gert viðvart af viðkomandi starfsmanni, umsjónarkennara eða skólastjórnanda. Starfsmaðurinn tilkynni skólastjórnendum skólans að hann hyggist vísa nemanda úr tíma eða af vettvangi og ákvörðun er tekin hvar nemandin skal dvelja umræddan tíma. Nemanda sem vísað hefur verið úr kennslustund er ávallt í umsjón starfsmanns. Framvinda máls skráð í Mentor.
Virði nemandinn regluna alls ekki þrátt fyrir ofangreind þrep, eða brot hans er mjög alvarlegt er honum vísað beint til skólastjórnenda, sem ákveða frekari aðgerðir og er foreldrum gert viðvart. Framvinda máls skráð í Mentor.

Flokkar agabrota

Auðarskóli hefur sett upp viðmið um alvarleika agabrota. Agabrot eru flokkuð í þrjá flokka; gulan, appelsínugulan og rauðan. Flokkarnir eru ekki endanlegt yfirlit yfir agabrot en hjálpa til við að greina alvarleika brota og bregðast við þeim samkvæmt því.

Gulur

Þras, ögrandi hegðun, rifrildi og fl.
Truflandi athafnir við leiki og vinnu annarra, þar á meðal vegna GSM eða tónhlöðu.
Slæm umgengni; flíkur, námsgögn, matsalur, skemmdir án ásetnings.
Sælgæti, gos og tyggjó.
Óheimil notkun hjóla, línuskauta og annarra farartækja á skólalóð á skólatíma.

Appelsínugulur

Særandi eða niðrandi orðbragð, hæðni og uppnefni.
Óhlýðni – neitar að fara eftir fyrirmælum.
Ósannindi – svik – svindl.
Líkamlegt áreiti – hrekkir og stríðni.

Rauður

Ofbeldi – slagsmál – ógnandi hegðun.
Einelti líkamlegt sem andlegt.
Skemmdarverk – veggjakrot.
Þjófnaður.
Íkveikja.
Neysla eða sala áfengis, tóbaks og fíkniefna.
Vopnaburður.

Reglur um tilkynningarskyldu

  • Vegna nýrra persónuverndarlaga hefur verið tekin upp sú vinnuregla að þegar foreldrar eða aðrir koma í skólann er ætlast til þess að allir geri grein fyrir sér við skólaritara þegar komið er inn í skólann.