Vinaliðar

Vinaliðar í Auðarskóla                                      Vinaliðar-Pdf                                                               

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna og er það starfrækt í 776 grunnskólum í Noregi sl. 3 ár. Vinaliðaverkefnið gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda. Aðal markmiðið með þessu verkefni er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í löngu frímínútum, þannig að bæði yngri og eldri nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Markmið okkar er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga.

Vinaliði á að:
– setja upp, taka þátt í og aðstoða við afþreyingu í frímínútunum
– sýna yngri nemendum sérstaka athygli sem og þeim sem eru einir í frímínútunum
– láta vita af því ef hann heldur að nemendum í skólanum leiðist, séu einmana eða ef hann verður vitni að einelti og útilokun eða öðru sem getur valdið vanlíðan nemenda
– fá dagsnámskeið í leikjum og ráðleggingar um hvernig hægt er að hvetja aðra í leik
– fá stuðning og leiðsögn frá umsjónarmanni Vinaliðaverkefnisins í skólanum

Einelti
Skólalóðin og frímínúturnar eru samkvæmt eineltisrannsóknum, því miður, helsti vettvangurinn fyrir einelti. Vinaliðaverkefnið er ekki eineltisáætlun heldur stuðningsverkefni við eineltisáætlun skólans og er hugmyndafræðin sú að þar sem boðið er upp á skipulagt starf, fái gerendur eineltis aðra hluti til að hugsa um. Aðgerðarleysi er nefnilega oft rótin að slæmum hlutum.

Vinnuframlag
Nemendur í 4. til 7. bekkja velja einstaklinga úr bekkjunum sem fá hlutverk Vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og taka til eftir leikina. Nemandi sem er valinn til að gegna hlutverki Vinaliða starfar í hálft ár í senn: Fyrra tímabil er frá ágúst hvers skólaárs og að miðjum janúar. Seinna tímabil er frá miðjum janúar og út maí hvert skólaár.
Vinaliðinn vinnur að verkefninu í löngu frímínútum skólans, tvo daga í viku, mánudag og miðvikudag eða þriðjudag og fimmtudag. Vinaliðinn mætir einnig á fundi þar sem starfið í frímínútum er skipulagt og vangaveltur sem því tengjast eru ræddar. Það er ekkert sem segir að Vinaliði geti ekki verið valinn aftur, hópurinn tilnefnir þá nemendur sem honum finnst passa í starfið hverju sinni.
Við val á Vinaliðum eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýni öðrum nemendum virðingu. Ef vafi leikur á heilindum nemandans, getur umsjónarkennari frestað starfi hans sem Vinaliða til næsta tímabils.

 

Hreyfing og skemmtun á venjulegum skóladegi
Mikilvægt er fyrir börn og unglinga að fá fjölbreytta hreyfingu og skemmtun og er það nauðsynlegur hluti af þroska þeirra, enda hafa rannsóknir sýnt að það er samhengi milli hreyfingar og námsgetu. Við viljum því að framboð af hverskonar hreyfileikjum og annarri afþreyingu í frímínútunum sé fjölbreytt og skipulagt þannig að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Vinaliðaverkefnið er okkar leið til að mæta þessu, en í verkefninu eru settir upp leikir og afþreying af nemendum og á þeirra forsendum. Nemendur skólans hafa svo að sjálfsögðu val um hvort og þá hvaða leikjum þeir taka þátt í.

Leikjanámskeið
Við upphaf starfs Vinaliðans er haldið leikjanámskeið fyrir alla Vinaliða í Auðarskóla. Á námskeiðinu er farið í leiki úr handbókinni „Leikir í frímínútunum“ sem er gefin út af Vinaliðaverkefninu og Vinaliðunum kennt að koma leikjunum í gang og hvernig hægt er að hvetja aðra til að taka þátt. Að auki sitja Vinaliðarnir á stuttum fyrirlestri um hlutverk Vinaliðans.

Umsjón/upplýsingar
Í Auðarskóla er Jón Egill Jónsson umsjónarmaður verkefnisins.