Heilsugæsla

Heilsugæsla

Skólaheilsuvernd

Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd og hluti af heilsugæslunni. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Skólahjúkrunarfræðingur vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar
Heilsufarsskoðanir fara fram í 1., 4., 7. og 9 bekk. Skoðunin felur í sér sjónpróf, hæðar og þyngdarmælingu auk fræðslu og viðtals um lífsstíl og líðan.
Bólusetningar eru í 7. og 9. bekk
·       7. bekkur
        Mislingar, rauðir hundar og hettusótt (ein sprauta) og HPV gegn                leghálskrabbameini hjá stelpum (2 sprautur á 6 mánuðum)
·       9. bekkur
         Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta).

Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til. Ef líkur eru að að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna.

Fræðsla/forvarnir
Skólahjúkrunarfræðingur sinni skipulagðri heilbrigðisfræðslu í öllum bekkjum skólans. Aðaláherslan er á 6H heilsunnar en hugmyndafræðin byggir á því að hugsa vel um heilsuna og fyrirbyggja þannig sjúkdóma. 6H heilsunnar eru: Hreyfing, hvíld, hamingja, hreinlæti, hugrekki og hollusta. Skólahjúkrunarfræðingur sinnir einnig kynfræðslu í efri bekkjum skólans þar sem farið er yfir kynþroskann, kynheilbrigði, kynsjúkdóma, getnaðarvarnir  ofl.
Börn og foreldrar geta leitað eftir ráðgjöf og stuðning skólahjúkrunarfræðings hvenær sem þurfa þykir yfir skólaárið.

Nánari upplýsingar má sjá á:
 www.6h.is
www.landlaeknir.is
Skólahjúkrunarfræðingur í Auðarskóla er:  
Þórunn Björk Einarsdóttir

Thorunn.Einarsdottir (hjá) hve.is

 

Lús

Ráðleggingar til foreldra
vegna lúsar

Allir geta fengið lús. Lúsasmit er ekki merki um óþrifnað. Lúsin smitast nær
eingöngu við beina snertingu. Það er sáralítil hætta á að smitast af umhverfinu
en það er möguleiki að smitast af greiðum/burstum og höfuðfötum. Lús sem dottið
hefur úr höfði verður fljótt löskuð og veikburða. Lúsin er háð hári til að geta
hreyft sig úr stað.

Komi upp lús eru foreldrar barna í viðkomandi bekk/stigi beðin um  að leita að lús hjá barni sínu og
öðru heimilisfólki strax samdægurs og næstu tvær vikur, samkvæmt eftirfarandi
leiðbeiningum:

 1. Skoðið hárið vel undir sterku ljósi, lúsin kann best við sig í hnakka, á
  hvirfli og aftan við eyru. Eggin/ nitin eru eins og litlir hnúðar á hárinu.
  Nitin eru oft ljós, dökk eða silfurlit. Lúsin límir þau föst, þess vegna
  strjúkast þau ekki auðveldlega af hárinu. Það er tiltölulega auðvelt að sjá
  fullvaxna lús, hún er 2-3 mm að stærð, oft grá, dökk eða ljósbrún. Hins vegar
  getur verið mjög erfitt að finna þær lýs sem eru nýkomar úr eggjunum, þær eru
  pínulitlar og hálfgegnsæjar.

 2. Notið sérstaka lúsakamba sem fást í lyfjaverslunum. Til eru mismunandi
  tegundir af kömbum, t.d. sérstakir fyrir þykkt og sítt hár. Greiðið í gegnum
  hárið. Setjið hárnæringu í þurrt hárið og dreifið henni vel um hárið. Byrjið að
  kemba með kambinum við hársvörðinn og kembið vel út í hárendana, gerið þetta yfir
  hvítu blaði, spegli eða vaski með vatni. Sé hárið sítt eða þykkt er betra að
  skipta hárinu upp og kemba hvert svæði fyrir sig. Eftir hverja kembingu í gegn
  um hárið, er rétt að strjúka af kambinum með eldhúspappír til að tryggja að lús
  eða nit verði ekki eftir í kambinum.

Ef lús eða nit finnst er
það ótvírætt merki um smit og þarfnast meðhöndlunar með sérstöku lúsameðali sem
fæst án lyfseðils í lyfjaverslunum. Tilkynnið lúsasmitið til
skólans!

Leitið að lús hjá öllum í fjölskyldunni, meðhöndlið aðeins þá sem eru með lús.
Fylgið leiðbeiningum um meðhöndlun nákvæmlega. Setjið lúsameðalið í rakt hárið,
forðist að bleyta hárið of mikið, það dregur úr virkni lyfsins. Endurtakið
alltaf meðferðina með lúsameðalinu eftir 8 daga eða samkvæmt leiðbeiningum. Ráðlagt
er að kemba alla í fjölskyldunni daginn eftir meðferð (á 1. degi) til að athuga
hvort meðferð hafi tekist. Ef lús finnst þarf að endurtaka meðferð strax. Kemba
þarf á fjögurra daga fresti næstu 2 vikur þ.e. á: 1. degi, 5. degi, 9. degi og
13. degi. Ekki er nauðsynlegt að þrífa heimili eða fatnað sérstaklega. Ráðlegt
er að meðhöndla bursta, greiður, kamba, hárskraut og húfur vegna möguleika á
smiti. Hella skal sjóðandi vatni yfir og láta liggja í bleyti í 10-15 mín. eða
frysta í 4-6 klst.