​Fjarkennsla í Auðarskóla

Auðarskóli Fréttir

Eins og ykkur er kunnugt þá hefur ríkt samkomubann á Íslandi nú um nokkurt skeið. Þetta bann hefur raskað kennslu í grunn- og leikskólum á Íslandi og höfum við ekki farið varhluta af því. Auðarskóli hefur mætt þessum breytingum með fjarkennslu í gegnum Teams fyrst á unglingastigi og síðar á miðstigi. Ekki hefur þetta gengið alveg áfallalaust fyrir sig sérstaklega þó vegna tæknimála. Í upphafi þurfti að kanna hvort skólinn hefði nauðsynlegan fjölda leyfa til þess að sinna fjarkennslu í Office 365. Með nokkrum tilfæringum þá var hægt að koma öllum nemendum í samband. Um síðustu mánaðarmót var svo komið að endurnýjun leyfa frá Office 365 og var sú ákvörðun tekin að halda okkur við sömu leyfi og við höfðum haft því þetta var að ganga ágætlega. Þau hjá Office 365 eru alltaf að betrumbæta leyfin sín (að þeirra sögn) og fækka útgáfum og gera þau aðgengilegri fyrir viðskiptavininn. Það hefur því nokkrum sinnum gerst að við höfum þurft að skrá nemendur inn aftur þar sem þau leyfi sem þau höfðu voru felld niður og annað tekið upp í staðinn. Þetta gerðist einmitt nú og hef ég verið að breyta leyfum hjá nokkrum nemendum nú upp á síðkastið þar sem þeir hafa ekki haft sama aðgang og áður. Við þær aðstæður sem nú eru í heiminum þá hafa þessar breytingar tekið lengri tíma frá Office 365 en við erum vön og hafa leyfisbreytingar tekið allt að 24 klukkustundum í stað 2-3 mínútna. Við höfum ekkert vald yfir þessu og verðum að sætta okkur við þetta eins og aðrir notendur út um allan heim.

Annars hefur fjarkennslan í Auðarskóla í gegnum Teams gengið vel og nemendur hafa verið að skila verkefnum þar í gegn ásamt því að taka próf bæði á unglingastigi sem og miðstigi. Eins hafa kennarar verið að halda fundi með nemendum í gegnum Teams og verið í bréfaskriftum með tölvupóstum. Sem dæmi má nefna að upplestrarkeppni 7. bekkjar fór fram í gegnum Teams-Stream, þ.e. nemendur lásu þar og kennarar tóku upp og hefur upplestur þeirra þegar verið sendur til dómaranna sem munu síðan skera úr um hver verður fulltrúi Auðarskóla í stóru upplestrarkeppni samstarfsskólanna í maí.

Við höfum lært mikið af þessu öllu sem skóli bæði kennarar og nemendur og má því segja að þessir fordæmalausu tímar sem við lifum nú á hafi fært okkur eitthvað jákvætt. Ég tel víst að þessi kunnátta eigi eftir að nýtast okkur í framtíðinni og við munum örugglega notfæra okkur hana við ýmis tækifæri þó vonandi aldrei við þær aðstæður sem nú eru í heiminum.

Þorkell Cýrusson aðstoðarskólastjóri