Óveður og ófærð

Viðbrögð við óveðri og ófærð                                                                                                                    Viðbrögð við óveðri og ófærð-pdf

1. Skólahaldi, bæði í grunn- og leikskóla er alla jafna ekki aflýst nema í allraverstu veðrum. Hinsvegar kann veður á einstökum akstursleiðum skólans að vera misjafnt og er þá skólaakstri stundum aflýst á þeim leiðum sem veður hamlar ferðaöryggi nemenda.
2. Foreldrar/forráðamenn nemenda meta sjálfir hvort þeir senda börn sín í skólann ef veður eru válynd. Í allri tvísýnu skal öryggi barnsins njóta vafans. Ef barn er haft heima vegna veðurs er það tilkynnt skóla.
3. Skólahald getur raskast í vondum veðrum vegna þess að hluti starfsmanna kemst ekki til starfa. Engu að síður er reynt að halda uppi stundaskrá í grunnskóla og dagskipulagi í leikskóla sé það mögulegt.
4. Versni veður á skólatíma flýtir skólinn stundum heimakstri. Þá er sent sms og sendur tölvupóstur úr skólanum til allra foreldra, sem í hlut eiga og lætur vita af breytingunni.
5. Ætlast er til þess af þeim kennurum sem kenna í síðasta tíma á stundaskrá hvers bekkjar að þeir sjái svo um, ásamt skólastjórnendum og skólaliðum, að börnin fari ekki ein út í óveður að afloknum skóladegi. Heimferð þeirra sé tryggð – ella sé börnunum haldið í skóla þar til foreldrar sækja þau eða aðrar ráðstafanir hafa verið gerðar.
6. Verði veður svo slæm eða válynd í lok skóladags á einhverjum akstursleiðum að börn í leik- og grunnskóla komist ekki heim er gripið til eftirfarandi ráðstafana:

  • Börnin eru höfð í skólanum í umsjón starfsfólks þar sem þau fá hressingu og þeim fundið eitthvað til dægrastyttingar.
  •  Haft er samband heim símleiðis til foreldra; upplýsingar veittar og í sameiningu gerðar ráðstafanir um framhaldið eftir aðstæðum.
  • Ef útséð er með að ekki verði komið á heimferð fyrir nóttina vinna starfsmenn og foreldrar í sameiningu að því að koma börnum í gistingu hjá vandamönnum í Búðardal.
  • Í einstökum tilvikum kunna börn að þurfa að gista í skóla með starfsfólki.

7. Ef óveður og eða ófærð innan Búðardals hamlar því að hægt sé að sækja börn í skóla er leitað til björgunarsveitar og lögreglu með aðstoð.