Lög foreldrafélagsins

1.grein                                                                                                                     Lög foreldrafélags Auðarskóla-Pdf
Félagið heitir Foreldrafélag Auðarskóla. Í félaginu eru allir foreldrar og forráðamenn nemenda í skólanum.

2. grein
Markmið félagsins eru að:
• Vera samstarfsvettvangur foreldra sem eiga börn í skólanum.
• Efla og tryggja gott samstarf foreldra og starfsfólks skólans.
• Styðja heimili og skóla við að skapa nemendum góð uppeldis- og menntunarskilyrði.
• Koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla- og uppeldismál.
• Standa vörð um réttindi barna til mennta og aukins þroska.

3. grein
Til að ná þessum markmiðum hyggst félagið m.a.:
• Stuðla að auknum kynnum barna, foreldra og starfsmanna skólans.
• Starfa eftir ákvæðum laga og reglugerða sem Alþingi og menntamálaráðuneytið setja um grunnskóla.
• Koma með tillögur og hafa frumkvæði að endurbótum og þróunarstarfi í samvinnu við skólayfirvöld.
• Kynna sér kennsluhætti og uppeldismarkmið skólans til dæmis með starfi í skólaráði.
• Halda fundi og námskeið um uppeldis- og skólamál.
• Styðja eftir megni félags- og tómstundastarf nemenda.
• Taka þátt í samstarfi við önnur foreldrafélög og samtök foreldra.
• Skipa bekkjarfulltrúa af hverju skólastigi- og leikskóladeild.

4. grein
Stjórn félagsins er skipuð fimm forráðamönnum barna skólans og tveimur varamönnum. Stjórnin skal skipuð formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum. Ritari gegnir jafnframt hlutverki varaformanns. Ávallt skulu minnst tveir aðalmenn eiga börn í leikskóla. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum. Aðalmenn stjórnar eru kjörnir til tveggja ára í senn, ávalt skulu a.mk. tveir aðalmenn sitja áfram í næstu stjórn. Varamenn eru kjörnir til eins árs í senn. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum.

5. grein.
Á aðalfundi skal kjósa tvo fulltrúa í skólaráð til tveggja ára og skal annar þeirra eiga barn í leikskóla. Einnig skal á aðalfundi kjósa til tveggja ára fulltrúa í fræðslunefnd sveitarfélagsins og annan til vara.

6. grein
Stjórn félagsins skal boða til aðalfundar ár hvert og skal það gert með minnst viku fyrirvara. Á dagskrá aðalfundar skulu þessir liðir vera:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Fráfarandi stjórn gerir grein fyrir starfi síðasta starfsárs og fjárhagslegri stöðu félagsins.
3. Fulltrúar í skólaráði gera grein fyrir starfi síðasta starfsárs.
4. Lagabreytingar, hafi tillögur þar um verið auglýstar í fundarboði
5. Kosningar. Stjórnarkjör, kosning fulltrúa í fræðslunefnd og kosning tveggja fulltrúa í skólaráð.
6. Önnur mál.

7. grein
Stjórn foreldrafélagsins er heimilt að skipa nefndir um afmörkuð viðfangsefni. Stjórnin setur nefndum verkáætlun í samráði við þær.

8. grein
Í upphafi skólaárs skal kjósa tvo fulltrúa foreldra eða forráðamanna af hverju skólastigi og leikskóla. Hlutverk fulltrúa er að efla og styrkja samstarf foreldra og nemenda og leitast við að treysta samband heimilis og skóla innan hverrar bekkjar- og leikskóladeildar. Fulltrúar mynda deildaráð foreldrafélagsins. Stjórn félagsins setur fulltrúum starfsreglur.

9. grein
Tvö deildaráð starfa í félaginu; leikskólaráð og grunnskólaráð. Deildaráð funda svo oft sem þurfa þykir. Deildaráð skulu koma saman til formlegs fundar eigi sjaldnar en tvisvar á skólaárinu með stjórn félagsins. Stjórnin undirbýr og boðar til þessara funda. Þar skulu rædd mál er varða markmið og starf foreldrafélagsins, starf foreldra í deildum og verkefni skólaráðs.

10. grein
Árgjald í félagið er 1.000 kr. á ári fyrir hvert heimili.

11. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé það tilkynnt í skriflegri fundarboðun með minnst sjö daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.